Leikskipulag
Gott leikskipulag felur í sér að leika skynsamlega miðað við aðstæður. Að kylfingar séu raunsæir og nýti sér sína styrkleika og reyni að draga úr veikleikum sínum. Þarna skiptir leikreynsla og sjálfsþekking miklu máli og að kylfingar læri af reynslu sinni.
Í góðu leikskipulagi þekkir kylfingur leik sinn. Hann veit til dæmis hve langt slegið er með hverri kylfu og hvernig flugið á boltanum venjulega er. Hann kann að slá bolta í mismunandi aðstæðum vallarins. Hann veit að veðurskilyrði skipta máli og er undirbúinn undir hvaða veður sem er. Hann gerir sér bæði grein fyrir þeirri áhættu og umbun sem getur falist í spili á viðkomandi golfvelli.
Kylfingurinn þekkir viðhorf sín og tilfinningar í keppnisaðstæðum. Hann leitast við að viðhalda þeim viðhorfum og tilfinningum sem gagnast honum best þegar spilað er undir álagi og í keppni.