Stutta spilið
Oft er sagt að fleyghöggin og vippin séu um það bil 25% af golfleiknum. Með því að vera góður í fleyghöggum og vippum er auðveldara að verða betri í langa spilinu því þá er verið að taka pressuna af því. Ekki hafa allir getu til að slá 200 metra löng högg en flestir hafa möguleika á að ná góðum árangri nálægt flötunum í 50 metra höggum og styttri höggum. Stutta spilið er því mjög mikilvægur þáttur í golfleik allra kylfinga.
Sveiflurnar í fleyghöggunum og vippunum fela í sér alla þá þætti sem eru mikilvægir í fullri sveiflu. Til að mynda þarf að nota ákveðnar líkamshreyfingar í fleyghöggum og vippum sem notaðar eru í langa spilinu. Einnig þarf að huga að sömu tækniatriðum varðandi mið og feril/stefnu kylfu í gegnum boltann. Tilfinning fyrir afstöðu líkama og handa og legu kylfunnar þegar kylfuhausinn hittir boltann, er auðveldara að þjálfa í stutta spilinu en er hægt að taka með sér í langa spilið.
Kylfingar eru oft duglegri að æfa langa spilið en það stutta af því að þeim finnst það skemmtilegra. Með því að æfa og bæta stutta spilið mun það leiða til meiri stöðugleika og samfellu í fullum höggum. Aðalatriðin í því sem er verið að læra í stutta spilinu mun einnig virka í langa spilinu. Að bæta sig í stutta spilinu mun leiða til þess að golfleikurinn verður betri í kringum flatirnar sem skilar sér strax í lægra skori og hjálpar kylfingnum einnig að slá betri löng upphafshögg sem þykja svo skemmtileg.
Kylfingar eru því hvattir til að æfa þau 25% af golfleiknum, sem fleyghöggin og vippin flokkast undir, mikið meira en þeir eru vanir. Lagt er til að kylfingar æfi stutta spilið; fleyghöggin og vipp, allavega jafn mikið og langa spilið. Því betri sem þú verður í langa spilinu, æfðu stutta spilið þá ennþá meira. Þá eru mjög miklar líkur á að miklar framfarir verði bæði í stutta og langa spilinu.